Félag malasíska kaupsýslumannsins Vincent Tan, Berjaya Property Ireland, hefur gengið frá kaupum á húsnæði gamla Brim, nú Útgerðarfélags Reykjavíkur, á Miðbakka Reykjavíkurhafnar að því er Fréttablaðið greinir frá uppúr tilkynningu til kauphallarinnar í Malasíu. Húsnæðið hefur löngum verið notuð sem vörugeymsla.

Hefur Vincent Tan, sem keypti 75% hlut í Icelandair hótelunum í sumar, hug á því að reisa þar fimm stjörnu hótel undir merkjum lúxushótelakeðjunnar Four Seasons, auk íbúða og hugsanlega starfsemi fyrir höfnina og Reykjavíkurborg að því er RÚV greinir frá.

Auk þess á Berjaya samstæðan 19 önnur hótel, flest í Asíu, en þess má geta að Vincent Tan er að auki eigandi á enska knattspyrnuliðinu Cardiff. Kaupverðið húsnæðisins við höfnina nam 14 milljónum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 1.750 milljónum íslenskra króna, en þar af var 12,6 milljóna dala skuld við Útgerðarfélag Reykjavíkur tekin yfir.

Gengið var frá síðustu greiðslu og afhendingu í byrjun ágúst, en félagið sem heldur utan um húsið er samnefnt heimilisfanginu, eða Geirsgata 11 ehf. Engar viðræður hafa farið fram við borgina um breytt skipulag á reitnum, en stjórn Faxaflóahafna samþykktu haustið 2018 að bíða með frekari framkvæmdir á svæðinu þangað til framkvæmdir og uppbygging á Miðbakka ljúki.

Þangað til verður húsnæðið leigt út, í heilu lagi eða hlutum til skemmri eða lengri tíma, og er vænst þess að búið verði að ganga frá leigusamningi fyrir áramót. Meðal hugmynda er um að í húsnæðinu verði matarmarkaður eða önnur starfsemi sem laði fólk á svæðið.

Hér má lesa frekari fréttir um umsvif á Miðbakka og söluna á Icelandair hótelum: