Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hyggst kalla eftir skýringum frá stjórn Landsvirkjunar um launahækkanir hjá stjórnarmönnum og forstjóra félagsins að því er RÚV greinir frá . Hann segir jafnframt að launahækkanirnar séu ekki í takt við það sem er að gerast í kjaramálum og að ríkisfyrirtæki eigi ekki að vera leiðandi í launaþróun.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að þrettán prósent af launahækkunum hjá fyrirtækinu megi rekja til gengisþróunar þar sem upphæðir í ársreikningi séu í dollurum. Laun forstjóra Landsvirkjunar hafi þannig hækkað um 32 prósent í krónum talið, úr tveimur milljónum að meðaltali árið 2016 í 2,7 milljónir á mánuði 2017. Það sé vegna launalækkunar sem forstjóri tók á sig árið 2012 og hafi leitt til þess að laun forstjóra voru orðin lægri en laun framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu.

Í ársreikningi kemur fram að kostnaður vegna launa stjórnar og forstjóra hafi hækkað um 49 prósent. Þegar búið var að taka mið af því að sterkara gengi við uppgjör síðasta árs gaf það til kynna 45 prósenta hækkun í krónum talið.