Fram kom á fundi Samorku í gær að uppbygging efnahagslífsins í kjölfar COVID-19 faraldursins er mikið hagsmunamál þjóðarinnar allrar. Þurrka þarf út það atvinnuleysi sem skapast hefur, auka gjaldeyris- og verðmætasköpun sé mjög stórt verkefni, en um leið þarf uppbyggingin að vera á grænum grunni svo haldið sé áfram að vinna að markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Fjölmörg tækifæri eru til grænnar uppbyggingar hér á landi vegna sérstöðu okkar í nýtingu endurnýjanlegrar orku eins og fram kom í erindum á fundinum sem bar yfirskriftina Græn endurreisn .

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði tækifærin vissulega vera til staðar. „Ég myndi til dæmis vilja sjá að við tækjum ákvörðun um það að framleiða vetni hér á landi.“ Hún segir þegar hefðu verið tekin skref í átt að grænni endurreisn, til dæmis með orkustefnu fyrir Ísland til ársins 2050 og nýsköpunarstefnu. „Það þýddi hins vegar ekki að sitja bara og bíða eftir að tækifærin myndu koma til okkar, við þyrftum að fanga þau og nýta þau til að auka útflutningstekjur og skapa ný og verðmæt störf. Við höfum ákveðið forskot, en það verður ekki hjá okkur endalaust. Ef við tökum þessa ákvörðun þýðir það líka að regluverkið þarf að styðja við það, sem er í dag of flókið, það þarf frekari raforkuframleiðslu í þau verkefni og það þarf þá sátt um það,“ sagði hún.

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, sagði lykilinn að grænni endurreisn vera græna orku og grænir innviðir. „Orkutengd framleiðsla hefur lengi verið stærsta stoðin í útflutningstekjum þjóðarinnar og þar liggja einnig stóru tækifærin til uppbyggingar í kjölfar COVID krísunnar. Má þar nefna orkuskipti og flytja út grænar lausnir og þekkingu sem þau kalla á, framleiðslu á grænu rafeldsneyti eins og vetni og uppbyggingu auðlindagarða um allt land, en þeir sem fyrir eru skapa nú þegar mikilvægar útflutningstekjur og á annað þúsund störf.“

Páll sagði að það sé ekki bara á Íslandi sem verið er að huga að endurreisn efnahagslífs í kjölfar heimsfaraldursins og samhliða áherslu á minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda blasi við að eftirspurn eftir grænni orku og grænum lausnum komi til með að aukast mikið. Hann segir því áhyggjuefni að um leið og þessi alþjóðlega þróun liggi fyrir og þau tækifæri sem Ísland gæti nýtt liggi nú fyrir Alþingi frumvörp sem beinlínis takmarki aðgengi þjóðarinnar og komandi kynslóða að endurnýjanlegu orkuauðlindum sínum á stórum hluta landsins. Einnig dragi þau verulega úr möguleikum á styrkingu eða uppbyggingu grænna orkuinnviða sem framtíðin gæti kallað á. „Ísland hefur allt til að bera til að grípa þau tækifæri sem við okkur blasa og ná fram grænni endurreisn ef við bara tökum höndum saman og látum af því verða,“ sagði Páll.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, talaði um einkenni kórónukreppunnar á fundinum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar tóku þátt í pallborðsumræðum.