Jóhann G. Möller, sjóðstjóri hjá Stefni, vill að ákvörðun um afskráningu Össurar úr Kauphöll Íslands verði frestað fram til næsta hluthafafundar. Aðalfundur félagsins er í dag. Meðal fundarefna er ákvörðun meirihluta stjórnar um að taka hlutabréf í Össuri úr viðskiptum í Kauphöllinni hérlendis. Félagið er í dag tvískráð, hér og í Kaupmannahöfn.

Í tillögu Jóhanns, sem hann ritar fyrir hönd sjóða Stefnis, segir að hún sé lögð fram í þeim tilgangi að reyna á sáttir milli meirihluta stjórnar Össurar og stórs hluta hluthafa. Íslenskir lífeyrissjóðir eiga stóran hlut í Össuri og hafa þeir m.a. mótmælt afskráningu úr Kauphöll Íslands. Sjóðirnir Stefnir ÍS-15 og Stefnir ÍS-5, sem Jóhann G. stýrir, halda um 1,8% af hlutafé í Össuri.

Þá segir Jóhann í tilkynningunni að máli sínu til stuðnings sé bati hafinn á íslenskum hlutabréfamarkaði. Stefnt sé að því að skrá nokkurn fjölda félaga í kauphöll á næstu ársfjórðungum. Hann segir að það hafi ekki verið sýnt fram á að sú staðreynd að Össur sé í kauphöll hér hafi reynst félaginu skaðlegt. Þá sé ekki víst að félagið geti ekki aukið hlutafé á meðan einhver hlutabréfanna eru skráð í íslenskum krónum. Félagið hafi einmitt ráðist nýlega í vel heppnað hlutabréfaútboð í Danmörku, segir í yfirlýsingu Jóhanns.