EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í gær það samrýmist ekki Evróputilskipun að miða við 0% verðbólgu í lánssamningi verðtryggðra neytendalána.  Ágreiningur er um hvort þetta álit nái einnig til húsnæðislána.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi ráðherra, vill að stjórnvöld velti því fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt að setja framkvæmd skuldaniðurfellingar á ís vegna álits EFTA-dómstólsins. Þetta segir Steingrímur í samtali við RÚV.

„Það væri til að kóróna allt saman ef menn færðu niður þessi lán með fé úr ríkissjóði og svo kæmi í ljós að í einhverjum mæli ætti að endurreikna þau eða meðhöndla öðruvísi. Ef óvissa með stöðu þessara lána í fjármálakerfinu er það ekkert smámál og ber að taka það alvarlega,“ segir Steingrímur í samtali við RÚV.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokks og formaður efnahags og viðskiptanefndar Alþingis, telur ekki ástæðu til að þess að fresta skuldaniðurfellingunni.

„Ég held að ekki sé tilefni til að fresta leiðréttingunni, það er ekki mín tilfinning," segir Frosti í samtali við RÚV.