Vísbendingar eru um að innan stórs hluta íslenskra útflutningsfyrirtækja er stefnan sett á aukin Grænlandsviðskipti. Í ljósi þessa hlýtur að vera forgangsverkefni að gera fríverslunarsamning á milli Íslands og Grænlands, að mati Hauks Más Gestssonar, hagfræðings hjá Íslenska sjávarklasanum.

Í viðtali við hann í Fréttablaðinu í dag kemur fram að í greiningu Íslenska sjávarklasans á umsvifum Íslendinga í Grænlandi og framtíðarmöguleikum að vöruflutningar hafi aukist talsvert á milli Íslands og Grænlands á síðastliðnum 10 árum. Verðmæti vöruútflutnings var í kringum 400 milljónir króna upp úr aldamótum en var komið í 2,6 milljarða í fyrra. Mestan hluta aukningarinnar má rekja til aukinna viðskipta með iðnaðarvörur eins og olíu, málma og iðnaðarsalt.

Í blaðinu segir jafnframt að innan Sjávarklasans starfar flutninga- og hafnahópur átján fyrirtækja á sviði flutninga, samgangna, hafnastarfsemi. Stefna hópsins skilgreini aukið samstarf fyrirtækjanna við Grænlendinga meðal forgangsverkefna. Hópurinn hefur í því augnamiði hafið samstarf við danska olíu- og gasklasann Offshoreenergy um að auka tengsl danskra, grænlenskra og íslenskrafyrirtækja varðandi leit og vinnslu á olíu og gasi á Grænlandi.

Haukur segir í samtali við Fréttablaðið Ísland í raun eina landið í heiminum sem bjóði upp á reglubundna flutninga til allra landa sem teljast til norðurslóða. Hann bendir á að þrátt þrátt fyrir að nokkuð sé þangað til tækifæri tengd skipaflutningum á norðurslóðum opnist fyrir alvöru verði að hafa hugfast að umsvif á Grænlandi muni aukast mikið á allra næstu árum. Yfir 30 umfangsmikil verkefni eru í deiglunni í olíuvinnslu, námugreftri og byggingu ál- og raforkuvera. Heildarverðmæti fjárfestinga eru nú um 900 milljarðar íslenskra króna (40 milljarðar danskra króna). Á sama tíma skorti innviði til að sinna uppbyggingunni. „Hér eru íslausar hafnir allt árið, góðir flugvellir og öflug flutningafyrirtæki svo dæmi séu tekin,“ segir Haukur Már.