Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mun taka þátt í fundi utanríkisráðherra norðurskautsríkjanna í Alaska í lok þessa mánaðar. Gert er ráð fyrir að Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, komi til fundarins og hefur Gunnar Bragi óskað eftir fundi með honum. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Gunnar Bragi segir í samtali við Morgunblaðið að útilokað sé að segja til um það hvaða vörur Rússar muni banna innflutning frá Íslandi á, komi á annað borð til viðskiptabanns gegn Íslandi. Ráðuneytið afli upplýsinga frá Rússlandi eftir megni.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur boðað til fundar norðurskautsríkjanna. Gunnar Bragi segir líklegt að Barack Obama Bandaríkjaforseti komi til fundarins, og það sé til marks um hve mikla áherslu Bandaríkin leggi á málefni norðurskautsins og loftslagsmál.