Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar hefur óskað eftir fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þar sem Ríkisendurskoðandi verður fenginn til að ræða fjárframlög fyrirtækja sem telja má tengda aðila til stjórnmálaflokka.

Margrét vísar í bloggfærslu Þórðar Björns Sigurðssonar frá föstudag þar sem bent er á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þegið styrki frá þremur fyrirtækjum sem ættu að teljast tengdir aðilar. Um er að ræða Síldarvinnsluna, Samherja og Gjögur.

Margrét segir að samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálaflokka skuli framlög tengdra aðila teljast saman.Hún hefur óskað eftir því að ríkisendurskoðun geri grein fyrir því með hvaða hætti fylgst er með tengslum styrkveitenda og til hvaða ráða sé gripið ef stjórnmálasamtök þiggji styrki sem þeim er óheimilt að þiggja.

Í bloggfærslu Þórðar kemur fram að tilefni sé til að skoða öll framlög lögaðila til allra stjórnmálaflokka, en ekki einungis styrkja umræddra sjávarútvegsfyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins.

Þess má geta að Síldarvinnslan gekk nýverið frá samkomulagi um kaup á sjávarútvegsfyrirtækinu Bergur-Huginn frá Vestmannaeyjum.