Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í Norðvesturkjördæmi, hefur farið þess á leit við formann atvinnuveganefndar að boðað verði til fundar í nefndinni við fyrsta tækifæri til að ræða erfiða stöðu sauðfjárbænda sem til er komin vegna yfirlýsinga um lækkun afurðaverðs til þeirra nú í haust.

Óskað er eftir því að á dagskrá fundarins verði umfjöllun um þau áhrif sem líklegt er að verðlækkun á sauðfjárafurðum hafi á afkomu sauðfjárbænda og byggð í sveitum landsins, viðbrögð stjórnvalda við stöðunni og tillögur þeirra til lausnar málsins. Þess er óskað að landbúnaðarráðherra verði boðaður til fundarins og enn fremur fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Landssamtaka sauðfjárbænda og Landssamtaka sláturleyfishafa.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um sendi stjórn Bændasamtaka Íslands frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir þungum áhyggjum af stöðu sauðfjárræktar í landinu. Stjórnin hvetur félagsmenn til að ræða við birgja og viðskiptabanka sem komin er upp og leita með þeim lausna. Samtökin munu enn fremur veita þann stuðning sem þeim er fært. Stjórn Bændasamtakanna hefur þegar rætt við stjórnvöld um mögulegar aðgerðir til að draga úr framleiðslu til lengri tíma litið.

„Mikill samdráttur í útflutningi á sauðfjárafurðum og slæmar horfur á þeim vettvangi valda mestu um það hvernig komið er. Þar ráða aðstæður sem sauðfjárbændur hafa alls engin áhrif á, svo sem hátt gengi krónunnar, bann við sölu sauðfjárafurða til Rússlands og ýmsar óhagstæðar breytingar á helstu mörkuðum fyrir lambakjöt frá Íslandi. Um þriðjungur þess lambakjöts sem framleitt hefur verið hérlendis undanfarin ár hefur farið á erlenda markaði og er því áfallið verulegt fyrir starfsgreinina ef raunin verður sú að alveg tekur fyrir þennan útflutning,“ segir meðal annars fram í fréttatilkynningu um málið.