Nayib Bukele, forseti El Salvador, hefur greint frá því að hann hyggist beita sér fyrir því að rafmyntin Bitcoin verði lögeyrir þar í landi. Ef þetta verður að veruleika mun El Salvador verða fyrsta landið til þess að gera rafmyntina að lögeyri. Washington Post greinir frá þessu.

Forsetinn greindi frá þessu í upptöku sem spiluð var á ráðstefnunni Bitcoin 2021 um helgina. Kvaðst hann ætla að koma frumvarpi þess efnis á framfæri til löggjafans á næstu dögum. Lét hann hafa eftir sér að til skamms tíma myndi þessi aðgerð skapa störf og gera þeim þúsundum sem standa nú fyrir utan hið hefðbundna fjármálakerfi kleift að taka þátt. Til langs tíma vonist hann til þess að þessi ákvörðun muni hjálpa til við að ýta mannkyninu í rétta átt.

Bukele, sem tók við forsetaembættinu árið 2019 og nýtur nokkurs stuðnings í heimalandinu, þykir nokkuð umdeildur. Til að mynda hefur hann verið sakaður um að streitast á móti tilburðum bandarískra yfirvalda til að berjast gegn spillingu. Að auki var hann sakaður um forræðishyggjulega tilburði er stjórnmálaflokkur hans hrakti ríkislögmann og hátt setta dómara úr störfum sínum. Vilja því einhverjir meina að um sé að ræða pólitíska sýndarmennsku af hálfu forsetans, til þess að skapa sér vinsælda - þá sérstaklega á netinu - og til að beina sjónum frá þessum umdeildu embættisfærslum hans.