Fari svo að Afl sparisjóður fari inn í Arion banka þá veikist sparisjóðakerfið. „Þetta höfum við tekið býsna alvarlega,“ segir Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra. Hún hefur óskað eftir því að Bankasýsla ríkisins geri forkönnun á því hvernig treysta megi kerfið með tilliti til Afls sparisjóðs. „Það er óljóst hvað kemur út úr þessu ennþá. En mikilvægast er að tryggja hagsmuni ríkis, heimamanna og eigenda sparisjóðanna og að þeir verði aðlaðandi fjárfestingarkostur,“ segir ráðherra.

Rætt var um stöðu sparisjóðanna í sérstökum umræðum á Alþingi í dag. Gunnar Bragi Sveinsson var málshefjandi og innti hann Katrínu eftir því hvort og hvernig hún sjái sparisjóðakerfið fyrir sér. Þá lagði hann áherslu á að mikilvægt sé að fá á hreint hver sýn Samkeppniseftirlitsins og fleiri aðila sé á sparisjóðakerfið.

„Ég hugsa að ekkert okkar vilji sjá tvo til þrjá banka á markaðnum,“ sagði hann og benti á að hverfi Afl sparisjóður inn í Arion banka þá fari með honum um 20% af þeim sparisjóðum sem enn lifi.

Stökkpallur fyrir nýja aðila á fjármálamarkað

Katrin benti á að Bankasýsla ríkisins haldi utan um eignarhlut ríkisins frá helmingi og upp í 90% af níu sparisjóðum landsins og sagði að ríkið eigi mikið undir því að sparisjóðirnir verði aðlaðandi fjárfestingarkostir.

„Framtíð sparisjóðanna skiptir máli til að tryggja samkeppni. Til þess þurfa þeir að vera öflugir og rekstrarhæfar einingar. Í skýrslu Samkeppniseftliritins er varað við samruna á fjármálamarkaði. Þeir eru með vökult auga á þróun mála. í skýrslunni er bent á að efla megi samkeppni hvort sem er með uppbyggingu sparisjóðakerfisins eða sem stökkpallur fyrir nýja aðila inn á fjármálamarkað,“ sagði ráðherra og benti á að hún hafi sent Bankasýslunni bréf þar sem kannað var hvort vilji sé til þess að tryggja hagsmuni sparisjóðanna svo hagsmunir ríkis og sparisjóða fari saman. Undir þetta hafi Bankasýslan tekið.