Hægt verður að beita stjórnarmenn félaga, sem ekki skila inn ársreikningum, fésektum eða afskrá þau með þeim afleiðingum að skuldir þeirra færast yfir á eigendur þeirra, verði tillögur Ríkisskattstjóra (RSK) að veruleika. Er fjallað um málið í Fréttablaðinu í dag.

Embættið vonast til þess að úrræðin muni einnig gagnast í baráttunni gegn kennitöluflakki. Um síðustu mánaðamót voru send út um fimm þúsund boðunarbréf til félaga sem hafa enn ekki skilað inn ársreikningum vegna ársins 2011.

Í frétt Fréttablaðsins segir að innan efnahags- og viðskiptanefndar virðist vera samstaða um að veita þessi auknu eftirlitsúrræði og innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sé verið að vinna tillögur að slíkum lagabreytingum og aðgerðum. Starfshópur sem vinnur að þeim mun skila af sér fyrir jól. Frumvarp er fyrirhugað snemma á næsta ári.