Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir í viðtali við Viðskiptablaðið í dag að hann vilji að Samkeppniseftirlitið hafi heimild til þess að brjóta upp fyrirtæki ef þau eru orðin það stór að stærð þeirra ógni samkeppni. Fyrir þessu hefur eftirlitið barist frá því árið 2005.

[Spurning blaðamanns]: Íslenskt atvinnulíf fór í gegnum mikið vaxtartímabil fyrir hrun, sem m.a. leiddi til þess að stórir eigendur bankanna urðu mjög fyrirferðarmiklir á mörgum öðrum sviðum atvinnulífsins. Þrjár til fjórar viðskiptablokkir, sem með einum eða öðrum hætti áttu stóra hluti í bönkunum, áttu meira og minna öll stærstu þjónustufyrirtæki landsins. Brugðust ekki eftirlitsstofnanir, þar á meðal Samkeppniseftirlitið, með því að leyfa þessu að gerast án þess gera neitt til þess að sporna gegn þessari þróun sem máli skipti?

"Við höfum hugsað vel út í þessi mál og spurt okkur hvort og þá hvar Samkeppniseftirlitið hefði getað gert betur. Mín afdráttarlausa niðurstaða er sú að samkeppnisyfirvöld hafi nýtt þau tækifæri sem lögin leyfa til þess að hafa áhrif á þessa þróun til góðs. Þau tæki sem þar liggja til grundvallar eru fyrst og fremst samrunareglurnar, því við tilteknar aðstæður geta samkeppnisyfirvöld stöðvað slíka samþjöppunarþróun. Í mörgum tilvikum  gripu samkeppnisyfirvöld inn í en í öðrum tilvikum voru ekki lagaheimildir til þess að grípa til aðgerða.

Samkeppniseftirlitið hefur margsinnis bent á það, bæði fyrir hrun og eftir, að það væri æskilegt að samkeppnisyfirvöld hafi ríkari heimildir til þess að skipta upp fyrirtækjum. Samkeppnisyfirvöld hafa núna aðeins heimild til þess að skipta upp fyrirtæki ef það hefur brotið af sér og uppskiptingin sé eina leiðin til þess að ráða niðurlögum brotsins. Við hjá Samkeppniseftirlitinu höfum verið að tala fyrir því alveg frá 2005 að það gæti verið skynsamlegt, á þessum litla markaði sem hér er, að samkeppnisyfirvöld hefðu heimildir til þess að brjóta upp fyrirtæki þegar stærð fyrirtækis er orðin svo mikil að tilvist þess er beinlínis farin að hamla samkeppni. Við hefðum klárlega tekið það til skoðunar hvort slíkum lagaheimildum hefði átt að beita, þó ekki sé hægt að sjá fyrir um árangurinn.

Það eitt að  hafa heimildina getur skapað mikið aðhald og haft mikil og jákvæð áhrif á samkeppni. Slíkar heimildir eru fyrir hendi í Bretlandi, og hafa haft jákvæð áhrif á þróun mála þar í landi. Nú er verið að vinna að því að fá þessar heimildir. Það ber þó að nefna að forsvarsmenn í atvinnulífinu hafa sett sig upp á móti þessari breytingu. Það er ekkert óeðlilegt við það í sjálfu sér, þar sem þetta eru miklar heimildir. Ég tel þó að samkeppnisyfirvöld eigi að vera með þær til þess að skerpa línurnar og geta þá gripið til aðgerða þegar það á við. Það er líka full ástæða til þess að huga að þessum hlutum núna, eftir hrunið," segir Páll Gunnar.