Nicola Sturgeon, æðsti ráðherra Skotlands, hefur hótað því að Skotar yfirgefi Bretland, ef að Bretar verði ekki hluti af innri markaði Evrópusambandsins eftir útgönguna úr sambandinu. Sturgeon gæti kallað til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð landsins, en Skotar höfnuðu nýverið sjálfstæði í slíkri atkvæðagreiðslu árið 2014.

Sturgeon undirbýr nú tillögur ásamt Bretum um hvernig landið geti orðið hluti af innri markað Evrópusambandsins, þrátt fyrir að England gangi úr sambandinu. Meirihluti kjósenda í Skotlandi kaus með því að vera hluti af Evrópusambandinu, þó að meirihluti Breta hafi viljað yfirgefa ESB.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í aðsendri grein Sturgeon í Financial Times . En eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá eru uppi sögusagnir um það að Skotar hafi áhuga á því að ganga í EFTA, sem myndi þýða að þeir hefðu aðgang að innri markað Evrópusambandsins, án þess að vera meðlimir að sambandinu.