Lög sem sett voru til að tryggja jafnan hlut karla og kvenna í stjórnum stærri fyrirtækja breyta vonandi hugarfari í sambandi við val stjórnarmanna með tíð og tíma. Þetta segir Hallbjörn Karlsson fjárfestir og stjórnarmaður í Högum og VÍS, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Hann segir að lögin munu fækka óhæfu körlunum og fjölga hæfu konunum í stjórnum fyrirtækja.

„Þess vegna eru þau nauðsynleg. Æskilegt er að lögunum verði haldið til streitu þar til raunveruleg breyting hefur átt sér stað þegagar hugað er að vali á stjórnarmönnum,“ segir Hallbjörn. Hann furðar sig á að í nefnd á vegum ríkisins sem fjallar um afnám gjaldeyrishafta séu átta karlar en engin kona. „Fannst engin hæf kona á Íslandi til að taka þátt í þeirri vinnu? Það hljómar ósennilega,“ segir Hallbjörn.