Gengið var í liðinni viku frá samingum milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um áframhaldandi gildi kjarasamninga. Með því var komið í veg fyrir fyrirsjáanlegar erfiðar kjaraviðræður í aðdraganda kosninga. Að sögn Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, var nauðsynlegt að stöðva launaskrið og ryðja út öllum verðbólgutilefnum næsta árs. "Það var einróma mat manna að hér væri á ferðinni vandi sem færi versnandi og best væri að leysa hann strax."

Vilhjálmur leggur höfuðáherslu á að verðbólga náist niður sem fyrst og vill sjá hraða lækkun milli mánaða. Hann bendir á að fram undan sé samdráttarár og að fyrirtæki verði að gæta sín, bæði við kostnaðar- og verðákvarðanir. "Umhverfið er að breytast og þess vegna verður fólk að gæta sín. Ef menn gera það ekki, mun það koma harkalega niður á þeim sjálfum."

Ítarlegt viðtal er við Vilhjálm í Viðskiptablaðinu í dag.