Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra leggur til að lög og reglur sem gilda um fjárfestingar og rétt útlendinga á afnotum af fasteignum hér á landi verði teknar til heildarendurskoðunar. Tillagan var á dagskrá ríkisstjórnarfundar í morgun.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins leggur ráðherra til að allt lagaumhverfið verði skoðað. Þar er meðal annars átt við jarðalög, ábúðarlög og lög um ívilnun vegna fjárfestinga. Í tillögu ráðherra er gert ráð fyrir að ríkisstjórnin skipi nefnd sem skili skýrslu um málið í apríl á næsta ári.

Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst er grundvöllurinn að þessari tillögu ráðherra meðal annars umræða um þær fjárfestingar sem Kínverjinn Huang Nubo hafði fyrirhugað á Grímstöðum á Fjöllum.

Í lok júlí síðastliðins felldi Hanna Birna úr gildi reglugerð Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi innanríkisráðherra. Sú reglugerð kvað á um að útlendingum með lögheimili á Evrópska efnahagsvæðinu væri óheimilt að kaupa fasteignir á Íslandi nema að hafa hér fasta búsetu eða að þeir stunduðu atvinnu- eða þjónustustarfsemi.