Fjármálaráðherra fær heimild til að selja allan hlut íslenska ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka, auk þess sem honum verður heimilt að selja ríflega 11% hlut í Landsbankanum, ef nýtt frumvarp, sem lagt var fram í morgun, verður að lögum. Samkvæmt frumvarpinu fær ráðherra jafnframt heimild til að selja hluti ríkisins í fimm sparisjóðum.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir að undanskilinn söluheimild verði 70% eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum hf., þ.e. frumvarpið mælir fyrir um að ríkinu sé ekki heimilt að selja meira af eignarhlut sínum en sem nemur þessu eignarhlutfalli. Þau mörk eru til samræmis við langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.

Í greinargerðinni er sömuleiðis greint frá því að gert sé ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs vegna eignasölu næstu fjögur árin verði um 31 milljarður króna.