*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Fólk 23. desember 2018 16:05

Vill heimsækja framandi staði

Brynja Dís Sólmundsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Alvogen á Íslandi.

Sveinn Ólafur Melsted
Brynja Dís Sólmundsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Alvogen á Íslandi, fór fyrir nokkrum árum í eftirminnilegt ferðalag um Balkanskagann ásamt eiginmanni sínum.
Haraldur Guðjónsson

Brynja Dís Sólmundsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Alvogen á Íslandi, hefur mestallan starfsferil sinn starfað innan lyfjageirans og kynnst  mörgum af mismunandi vinklum geirans. Hún kveðst vera mjög ánægð í nýja starfinu.

„Þetta leggst rosalega vel í mig. Ég er búinn að starfa hjá Portfarma, sem  sameinaðist síðar Alvogen, frá árinu 2012. Ég byrjaði sem sölu- og markaðsstjóri og færði mig svo meira yfir í reksturinn. Það er fullt af skemmtilegum áskorunum og mikið að gerast í samheitalyfjabransanum. Ég er framkvæmdastjóri Alvogen ehf., sem er sölu- og markaðseining fyrirtækisins. Þessi eining sér um innflutning og sölu lyfja og heilsutengdra vara á Íslandi."

Í frítíma sínum þykir Brynju best að vera í faðmi fjölskyldunnar og njóta góðra stunda með eiginmanni sínum, Vali Þráinssyni, og dóttur þeirra. Í febrúar mun fjölskyldan svo stækka þegar nýr fjölskyldumeðlimur mætir í heiminn.

Á meðal annarra áhugamála Brynju eru útivera, ferðalög og matarboð.

„Ég og maðurinn minn höfum mikinn áhuga á ferðalögum og þá helst framandi ferðalögum, ekki þessum týpísku utanlandsferðum á strönd. Við viljum frekar skoða heiminn og heimsækja framandi staði.  Síðast fórum við meðal annars  til Istanbúl í Tyrklandi. Það var mjög gaman að koma þangað og upplifa öðruvísi aðstæður og menningu en maður er vanur. Svo höfum við einnig farið í skemmtilega reisu um Austur-Evrópu og heimsóttum þá meðal annars Króatíu, Svartfjallaland og löndin þar í kring. Það var virkilega gaman að keyra þarna og skoða sig um. Við fórum í þetta ferðalag áður en dóttir okkar fæddist og vorum því tvö að ferðast þarna um í einn mánuð. Landslagið á þessum slóðum er mjög fallegt. Það voru ýmis lönd sem voru ansi eftirminnileg á mismunandi hátt. Má þar helst nefna stríðshrjáða hluta Bosníu og Hersegovínu, en það var eftirminnilegt en einnig sorglegt að sjá ástandið þar. Króatía er svo gífurlega fallegt land og þá sérstaklega eyjarnar þar í kring. Þær eru í raun algjör paradís en svo þegar það var komið lengra inn í landið kom bersýnilega í ljós að það hafa átt sér stað mikil átök í landinu. Það var því svona sitt lítið af hverju sem maður upplifði á þessu ferðalagi sem lifir sterkt í minningunni."

Nú er heldur betur farið að styttast í jólin og leggjast þau mjög vel í Brynju, sem er að eigin sögn mikið jólabarn. Hún bendir á að jól séu hinn fullkomni árstími fyrir samverustundir með fjölskyldu sem og matarboð, en eins og áður hefur komið fram eru þar á ferð tvö af helstu áhugamálum Brynju.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is