„Ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna. Við þurfum að meta hana og hvort hún hafi áhrif til þess að vextir hér séu almennt hærri en ella," sagði Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra á Alþingi í dag. Tilefnið var fyrirspurn frá Lilju Mósesdóttur, þingmanni utan flokka, um hvort ráðherra teldi líkur á að lífeyrissjóðir næðu 3,5% raunávöxtun í núverandi haftaumhverfi.

Lilja sagði lífeyrissjóðina vera alltof stóra fyrir íslensk hagkerfi. Vegna skorts á fjárfestingatækifærum ættu þeir erfitt með að ná 3,5% raunávöxtun á eignir sínar. Sérstaklega þegar þeir gætu ekki fjárfest erlendis vegna gjaldeyrishafta. Varaði hún við hugmyndum um að stækka eignir sjóðanna í krónum eins og felst í hugmyndum um að þeir selji erlendar eignir til að kaupa aflandskrónur á uppboði.

Árni Páll sagði þetta athyglisvert álitaefni. Það væru mjög margar krónur að elta fáar eignir. Slíkt væri almennt séð uppskrift á verðbólguskot - verðbólum - og eignaverð ryki upp úr öllu valdi.

Þetta sjónarmið er í takt við það sem Marinó Örn Tryggvason forstöðumaður eignastýringar fagfjárfesta setti fram á fundi í Arion banka í gær. Sagði hann eignaverð hækka í þessum aðstæðum og langtímavexti óhjákvæmilega lækka.

Lilja Mósesdóttir
Lilja Mósesdóttir
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)
„Við eigum ekki að hvetja til þess að eignir séu fluttar heim þegar lífeyrissjóðir geta ekki fjárfest í arðbærum fjárfestingartækifærum eða lofa auknu framlagi ríkisins inn í lífeyrissjóðakerfið eða gefa vilyrði um hækkun iðgjalda," sagði Lilja á Alþingi í dag.

„Ég er ekki sammála þeirri niðurstöðu háttvirts þingmanns að lífeyrissjóðakerfið sé vandamál út af fyrir sig eða að það sé dæmt til að mistakast vegna þess að það skorti fjárfestingatækifæri. Verkefnið okkar er að fjölga þeim. Við erum í skuldaúrvinnslunni að skapa ný tækifæri í fyrirtækjum sem koma með þokkalega skuldabyrði út og eru vænlegir fjárfestingakostir. Við viljum fjölga fjárfestingakostunum. Það þarf að stækka kökuna. Það þarf að gera fleirum færi á að fjárfesta í fjölbreyttari eignum. Og lífeyrissjóðir verða að geta fjárfest í öðru  en bara ríkisskuldabréfum," svaraði Árni Páll Árnason.