Lykilstjórnendur Arctica Finance, sem unnu með Skúla Mogensen forstjóra Wow air sem fór í gjaldþrot í síðustu viku, funduðu í fyrrakvöld með Sveini Andra Sveinssyni öðrum skiptastjóra þrotabúsins að því er Morgunblaðið greinir frá, meðal annars til þess að kaupa vörumerkið út úr félaginu og aðrar mikilvægar eignir.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Skúli nú reynt að safna jafngildi um fimm milljörðum króna til að endurvekja flugfélagið, en í kynningu með fjárfestingunni segir að stjórnendur félagsins hafi lært sína lexíu og muni einblína á harða lággjaldastefnu í rekstrinum.

Í áætlunum forsvarsmanna félagsins, sem eru ýmsir lykilstjórnendur Wow air ásamt Skúla, er gert ráð fyrir mun hraðari vexti þess heldur en Wow air jókst á sínum tíma, það er að 7 vélar verði í rekstri strax á næsta ári. Það tók hins vegar fimm rekstrarár fyrir Wow air að ná þeirri stærð, árið 2016.