Ónafngreindur aðili vill kaupa allar íbúðir í eigu Fasteigna Ísafjarðarbæjar. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu vikublaðsins Bæjarins besta á Ísafirði.

Þar segir að formleg fyrirspurn frá fasteignasölunni um sölu á íbúðunum hafi verið tekin fyrir á fundi bæjarráðs fyrr í vikunni. Í fyrirspurninni komi fram að áhugasamur kaupandi hafi leitað til Garðatorgs varðandi kaup á íbúðunum. Sá hefur í huga óbreytt rekstrarform og útleiga á íbúðunum verður áfram í sömu mynd og verið hefur, gangi kaupin í gegn.

Fasteignir Ísafjarðarbæjar leigja út íbúðarhúsnæði og hafa samkvæmt vefsíðu Ísafjarðarbæjar yfir að ráða um 88 íbúðum á Ísafirði, 15 íbúðum á Suðureyri, 3 íbúðum á Flateyri og 11 á Þingeyri. Fyrirtækið er að fullu í eigu Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð hefur ekki tekið afstöðu til málsins en fól Gísla Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra að kanna málið betur og afla upplýsinga.