Ferðaskrifstofa Íslands hyggst kaupa rekstur Heimsferða en þetta kemur fram í tilkynningu. Viljayfirlýsing þessa efnis hefur verið undirrituð og er stefnt að því að rita undir endanlegan samning í næstu viku. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Ferðaskrifstofa Íslands hefur undanfarið rekið Úrval/Útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir en stofurnar hafa verið nokkuð leiðandi í þessum bransa hér á landi. Sömu sögu má segja um Heimferðir þar til að rekstur félagsins fór í þrot á sama tíma og Primera Air lagði upp laupana. Arion banki tók yfir rekstur Heimsferða þegar það gerðist sumarið 2019.

„Markmiðið er að bjóða landsmönnum víðtæka þjónustu og fjölda spennandi áfangastaða á næstu misserum á hagkvæmum kjörum. Eins og kunnugt er hefur COVID 19 faraldurinn haft mikil áhrif á rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu. Það er ljóst að með fyrirhugaðri sameiningu næst fram hagræðing sem mun gera þessum fyrirtækjum kleift að hefja starfsemi aftur eins fljótt og mögulegt er með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi,“ segir í tilkynningunni.

Verði af kaupunum mun rekstur Heimferða verða sérstök eining innan Ferðaskrifstofu Íslands. Sem fyrr segir eru kaupin háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.