Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing um að erlendur fjárfestir muni fjárfesta fyrir 48,3 milljónir evra í nýju hlutafé í Alfesca. Það eru tæplega 5,5 milljarða íslenskra króna á því gengi sem miðað er við, sem er miðgengi gefið út af Seðlabanka Íslands 23. maí, 113,55 íslenskar krónur á evru.

Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að þessi fjárfesting innsigli þær nánu og uppbyggilegu viðræður sem átt hafa sér stað á milli Alfesca og nýja hluthafans um nokkra hríð. Verði af kaupunum verður um að ræða 12,6% heildarhlutafjár Alfesca.

Vilji aðila stendur til að fjárfestingin verði með þeim hætti að keyptir verði í áskrift 850 milljónir nýrra hluta sem hver er að nafnverði ein íslensk króna, og er áskriftarverðið á genginu 6,45 fyrir hvern hlut, sem felur í sér 6,9% afslátt miðað við gengi hluta í Alfesca við lokun viðskipta föstudaginn 23. maí.

Í kjölfar þess að nýlega voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á lögum um tekjuskatt, sem m.a. fela það í sér við ákveðnar aðstæður að felld er niður skattlagning söluhagnaðar hlutabréfa, þá mun fjárfestirinn hafa uppi áform um að stofna eignarhaldsfélag hér á landi sem mun halda utan um hlutafjáreignina í Alfesca.

Alfesca hefur að eigin sögn sterkan efnahagsreikning og var eiginfjárhlutfall félagsins 47,4% 31. mars sl.

Þegar við bætist nýtt fjármagn með þessu nýja hlutafé er ljóst að Alfesca er vel í stakk búið til að þróa félagið áfram og skoða tækifæri til að taka yfir önnur fyrirtæki, þrátt fyrir að aðstæður á markaði séu almennt erfiðar, að því er segir í tilkynningu félagsins.

Vonir standa til að gengið verði frá þessari fjárfestingu innan fárra vikna.