Bandaríski vogunarsjóðurinn Apollo á í viðræðum við gamla Landsbankann um kaup á Aurum, eiganda tveggja skartgripakeðja í Bretlandi, að því er segir í frétt breska blaðsins Telegraph. Ef af kaupunum verður mun stjórnarformaður Aurum, Don McCarthy, græða töluvert, en hann á umtalsverðan minnihluta hlutabréfa í fyrirtækinu.

Samkvæmt heimildum Telegraph er rætt um að kaupverðið muni nema sexföldum hagnaði félagsins fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA). Áætlanir gera ráð fyrir að EBITDA Aurum verði um 30 milljónir punda í ár og miðað við það yrði kaupverðið um 180 milljónir punda, eða um 36,3 milljarðar króna.

Ekki er gert ráð fyrir því að kaupin verði frágengin fyrir jól, enda er jólavertíðin mjög mikilvæg fyrir Aurum.