Malcolm Walker, stofnandi Iceland verslunarkeðjunnar, fer fyrir hópi fjárfesta sem sækist eftir því að kaupa Woolworths verslanakeðjuna. Baugur er meðal þeirra sem stendur að kaupunum með Walker.

Iceland keðjan er í eigu Baugs og félaga tengdum Baugi, á meðan Baugur á einnig um 10% hlut í Woolworths.

Walker og félagar sækjast eftir því að kaupa verslanir Woolworths, 815 talsins, en ekki aðra þætti starfsemi félagsins.

Smásöluarmur Woolworths hefur hingað til ekki skilað miklum hagnaði. Sem dæmi má nefna að á síðasta ári var hagnaður af verslunarrekstri Woolworths 3,4 milljónir punda á meðan hagnaður af annarri starfsemi félagsins nam 54,8 milljónum punda.

Talið er að Walker og félagar setji ýmis skilyrði, t.d. að fyrri eigendur taki á sig skuldir félagsins og lífeyrisskuldbindingar. Fari svo að það sé samþykkt má vera að borgað sé með félaginu.

Á móti kemur að ýmsir greiningaraðilar telja að gengi hlutabréfa Woolworths muni hækka losni keðjan við smásöluarm sinn.

Þetta kemur fram í frétt Telegraph.