Mikilvægt er að rannsókn Alþingis á einkavæðingu bankanna og lífeyrissjóðum fari ekki af stað fyrr en önnur af þeim tveimur rannsóknum sem eru í gangi á vegum þingsins verði lokið, að sögn Álfheiðar Ingadóttur, varaformann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Framhald fyrri umræðu þingsályktunartillögu nefndarinnar um skipun rannsóknarnefndar um starfsemi lífeyrissjóðanna fór fram á Alþingi í dag. Nefndin á að rannsaka starfsemi og fjárfestingar lífeyrissjóðanna frá árinu 1997 þegar skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða var tekin upp og til loka árs 2011.

Álfheiður sagði mikilvægt að Alþingi rannsakaði lífeyrissjóðina og myndi hún koma til viðbótar við úttekt lífeyrissjóðanna sjálfra sem kom út í fyrra. Á hinn bóginn lagði hún á það áherslu að nýta beri bæði húsnæði, mannafla og reynslu hans við þær rannsóknir sem á eftir að fara út í. Tvær rannsóknir eru nú í gangi á vegum nefnda Alþingis, þ.e. á starfsemi Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna. Hún mælti jafnframt gegn því að margar umfangsmiklar rannsóknir séu í gangi á sama tíma.

„Erfitt að áætla fyrirfram hvaða stefnu slíkar rannsóknir geta tekið. Það er erfitt að áætla um umfang og tíma og kostnað við þær rannsóknir sem hefur verið hrundið af stað,“ sagði hún og lagði áherslu á að koma verði í veg fyrir að þenja út starfsemi rannsóknarnefnda.