Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að hann telji allt tal um ráðgjafastjórn tómt tal við þær aðstæður að ríkisstjórnin hafi misst meirihluta eftir fund sinn við Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands á Bessastöðum nú í morgun.

Jafnframt segir hann að fyrri orð hans um að óska eftir því að ráðherrar Bjartrar framtíðar verði ekki í starfsstjórn sem Viðskiptablaðið hefur sagt frá , hefur ekki lengur þýðingu eftir að hafa beðist lausnar fyrir alla ríkisstjórnina og hann muni ræða við forystumenn beggja fyrrverandi samstarfsflokkana um að flokkarnir sitji áfram í starfsstjórn.

Bjarni vill að kosið verði 4. nóvember næstkomandi, en það er sama dagsetning og flokkur hans, Sjálfstæðisflokkurinn hafði stefnt að því að halda landsfund. Bjarni segist þurfa að ræða þá stöðu við Miðstjórn flokksins, en hann segir aðspurður að sú dagsetning feli í sér að halda kosningar svo fljótt sem auðið er, miðað við þá stöðu að allir forystumenn flokkanna hafa lýst sig viljuga til að blása til kosninga.

Ef hinn minnsti vafi kemur upp á því að sátt geti myndast um það, mun hann óska eftir þingrofi og þá verða kosningar að eiga sér stað innan 45 daga. Bjarni segir það mjög öfugsnúið að segja að nú sé hann gagnrýndur fyrir að hafa varðveitt trúnaðarupplýsingar, í samhengi við að í fyrri skipti hafi menn verið sóttir til saka fyrir að hafa ekki gert það.

Aðspurður segir hann að ekkert geti komið upp á milli hans og föður hans og það trúnaðartraust sem þeim á milli fór. Hann segist ekki ætla í neina opinbera umræðu um það hvað honum finnist að faðir sinn hefði átt að gera spurður hvort hann hefði viljað að faðir sinn hefði borið undirskriftina við meðmælabréf á hendur dæmds manns undir sig á sínum tíma. ,,Það er bara liðin tíð" sagði Bjarni