Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), segist sífellt bjartsýnni á að aðildarríki ESB nái saman um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja eftir margra ára viðræður. Financial Times greinir frá.

Tillagan, sem var fyrst lögð fram árið 2012, felur í sér að hlutfall kynjanna af stjórnarmönnum (sem sitja ekki einnig í framkvæmdastjórnum fyrirtækjanna) verði minnst 40% en geti þó lækkað niður í 33% hjá aðildarríkjum sem setja sér einnig markmið um hlutfall kynjanna í framkvæmdastjórnum fyrirtækja.

Málið hefur verið fast í ráðherraráði ESB í áraraðir vegna andstöðu nokkurra þjóða, þar á meðal Þýskalands og ákveðnum Norðurlandaþjóðum og Eystrasaltslöndum, sem telja að ákvörðun sem þessi ætti að vera tekin af stjórnvöldum hvers lands fremur en af Evrópusambandinu.

Hin þýska von der Leyen hyggst vinna með Frökkum á meðan þeir fara með forsæti ráðherraráðs ESB á fyrstu sex mánuðum ársins. Þá segist hún vongóð um að þýsk stjórnvöld muni styðja tillöguna að þessu sinni eftir að ný samsteypustjórn var mynduð í Þýskalandi í lok síðasta árs. Von der Leyen segir að löggjafinn ætti að stefna að því að komast að samkomulagi um tilskipun á fyrri helmingi ársins.

„Það er kominn tími til að halda áfram með þetta mál,“ hefur FT eftir von der Leyen. „Það hefur setið á hillunni í tíu ár, en á þessum tíu árum hefur myndast mikil hreyfing og þekking.“ Hún segir jafnframt að gögn sýni fram á að fyrirtæki með fjölbreyttar stjórnir skili betri árangri.

Fyrirhugaða tilskipunin, sem nær ekki til lítilla, meðalstórra eða óskráðra fyrirtækja, felur í sér að fyrirtæki sem uppfylla ekki skilyrðin þurfi að útskýra ástæðurnar fyrir því og tilkynna um umbótaskref. Tillagan felur ekki í sér sektir eða refsingar heldur munu aðildarríkin sjálf sjá um útfærslu hennar.

Reglurnar myndu hafa töluverð áhrif en í dag eru aðeins 8 af 27 aðildarríkjum með skyldubundna kynjakvóta fyrir skráð fyrirtæki, þar á meðal Frakkland, Þýskaland og Ítalía.