Alþingi á að stofna sérnefnd til að fjalla um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra í stað þess að senda málið til saksóknarnefndar Alþingis, að sögn Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstri grænna.

Til snarpra orðaskipta kom á Alþingi fyrir stundu um það hvert senda eigi málið. Umræður um afturköllun ákærunnar er það eina á dagskrá Alþingis í dag.

Árni Þór sagði það brot á lögum að vísa málinu til saksóknarnefndar. Bjarni Benediktsson og nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar vildu hins vegar senda það til nefndarinnar. Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, stóð hins vegar fast við það sem fram kom í yfirlýsingu flokksins í gær, að Alþingi eigi ekki að hafa afskipti af málinu.