Nicos Anastasiades, forseti Kýpur, bað í síðustu viku ráðamenn í evruríkjunum í dag um að endurskoða skilmála neyðarlána sem þau veittu eyríkinu í mars. Hann bendir m.a. á að björgunaraðgerðirnar hafi ekki skilað tilætluðum árangri þar sem bankarnir til til stóð að bjarga séu nú komnir í vandræði. Þar á meðal eru Bank of Cyprus sem tók við þeim eignum Laiki Bank sem töldust traustar í vor. Þá segir forsetinn að þótt gjaldeyrishöft sem sett voru á í vor hafi verið aflétt að hluta þá hafi þau neikvæð áhrif.

Lánardrottnar Kýpur sem komu að björgunarpakkanum í vor voru auk framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, evrópski seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Reuters-fréttastofan hefur hins vegar eftir ónafngreindum heimildamanni að þrátt fyrir óskir forseta Kýpur þá séu engar áætlanir uppi um að endurskoða björgunaráætlun fyrir Kýpur. Ekki er heldur í bígerð að veita stjórnvöldum meiri lán.

Reuters-fréttastofan segir fjármálaráðherra evruríkjanna ætla að ræða bréf forseta Kýpur á fundi sínum í Lúxemborg á morgun.