Valgerður Sverrisdóttir iðnðararráðherra telur að það þurfi að kanna hagkvæmustu staði hér á landi fyrir hugsanlegar sjávarfallavirkjanir með því að mæla sjávarstrauma og dýpi til að vera í stakk búin að meta hagvæmni þeirra strax og tæknin og reynslan leyfir. "Spurningin er ekki hvort, heldur hvenær þessi mikla orka verður beisluð sagði iðnaðarráðherra á ráðstefnu Orkustofnunar um nýja möguleika til orkuöflunar sem haldin var í gær. Þar voru meðal annars til umfjöllunar rannsóknir á sjávarfalla- og ölduhreyfingavirkjunum.

Iðnaðarráðherra taldi þetta áhugavert verkefni fyrir Íslendinga þegar til lengri framtíðar er horft. "Ég upplifði það síðastliðið haust ásamt starfsmönnum iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta að horfa á sjávarfallastrauma úr Hvammsfirði falla til Breiðafjarðar og var það afar merkilegt að horfa á alla þá orku sem þar fellur út og inn úr firðinum. Spurningin er ekki hvort, heldur hvenær þessi mikla orka verður beisluð. Við þurfum því að kanna hagkvæmustu staði hér á landi fyrir hugsanlegar sjávarfallavirkjanir með því að mæla sjávarstrauma og dýpi til að vera í stakk búin að meta hagvæmni þeirra strax og tæknin og reynslan leyfir."

Í ræðu ráðherra kom fram að sjávarfallavirkjanir eiga það sammerkt með vindorkuvirkjunum að þær eru ekki í samfelldum rekstri. "Þessar virkjanir verða því að styðjast við aðra raforkuframleiðslu, sem vissulega getur verið hagkvæmt, t.d. til að draga úr miðlunarþörf vatnsorkuvirkjana. Tækniþróun þessara orkugjafa kann einnig tímalega að haldast í hendur við mögulega þróun í vetnistækni. Verði framtíðarþróun í vetnistækni á þann veg að unnt verði með hagkvæmum hætti að geyma vetni sem orkubera fyrir samgöngutæki munu þessir virkjunarkostir verða álitlegir til raforkuframleiðslu fyrir vetni á Íslandi," sagði iðnaðarráðherra.