Kortaþjónustan hefur sent áskorun til Samkeppniseftirlitsins um að kæra samkeppnislagabrot stjórnenda Valitors til lögreglu. Um leið eru stjórnvöld hvött til að tryggja Samkeppniseftirlitinu auknar heimildir þannig að eftirlitið geti ekki aðeins vísað málum til lögreglu eins og nú er heimilt heldur líka til annarra opinberra eftirlitsaðila, s.s. Fjármálaeftirlits og skattayfirvalda. Í áskoruninni er þess sömuleiðis krafist að bæði lögregla og Fjármálaeftirlit rannsaki hvort Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, uppfylli hæfisskilyrði laga um fjármálafyrirtæki þar sem hann var framkvæmdastjóri Valitor á þeim tíma sem fyrirtækið var uppvíst að brotum á samkeppnislögum.

Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar.
Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar.
© BIG (VB MYND/BIG)

Þá kemur fram að Kortaþjónustan hafi starfað í rétt rúman áratug. Á þeim tíma hafi félög í samkeppni við Kortaþjónustuna greitt samtals 1.235 milljónir króna í sektir til Samkeppniseftirlitsins vegna brota á samkeppni.

Í áskorunninni sem Kortaþjónustan hefur sent fjölmiðlum segir orðrétt:

„Í ljósi ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 08/2013 þar sem eftirlitið lagði 500 milljóna króna sekt á Valitor vegna alvarlegra, langvarandi og síendurtekinna brota Valitor gegn samkeppnislögum skorar Kortaþjónustan á Samkeppniseftirlitið að nýta heimildir samkeppnislaga og kæra málið til lögreglu til rannsóknar. Í ákvörðuninni kemur fram að brotin hafi verið mjög alvarleg og að þau varði mikilvæga markaði, bæði fyrir neytendur og atvinnulífið. Jafnframt sé með þeim brotið gegn skilyrðum sem Valitor undirgekkst í sátt við Samkeppniseftirlitið árið 2007, eftir að hafa þá viðurkennt brot sín. Það eitt bendir til einbeitts brotavilja. Augljóst má því vera að þau úrræði sem Samkeppniseftirlitið hefur lögum samkvæmt til að leggja sektir á brotleg fyrirtæki eða ljúka málum með sátt duga einfaldlega ekki til að stöðva Valitor í því að brjóta ítrekað gegn samkeppnislögum. Þess vegna hvetur Kortaþjónustan, sem fyrr segir, Samkeppniseftirlitið til að vísa málinu til lögregluyfirvalda til rannsóknar.“