François Hollande, frambjóðandi Sósíalista í forsetakosningunum í Frakklandi, leggur til að þeir sem hafi eina milljón evra, jafnvirði tæpra 170 milljóna króna, í árstekjur greiði 75% skatt. Hann segir tekjur þeirra með svo þykk peningaveski alltof háar.

François Hollande
François Hollande

Breska dagblaðið Financial Times greinir frá því í netútgáfu sinni í dag að tillaga Hollande hafi komið mörgum á óvart, meira að segja nokkrum félögum hans í Sósíalistaflokknum.

Bernard Accoyer, forseti franska þingsins og samflokksmaður Nicolasar Sarkozy, forseta Frakklands, brást harkalega við tillögu Hollande og sagði hann þær á skjön við skattastefnu í öðrum Evrópuríkjum. Tillagan jafngildir því að Sósíalistar vilji hrekja auðmenn úr landi, að sögn Accoyer.

Pierre Moscovici, kosningastjóri Hollande, segir í samtali við blaðið að nái tillögurnar fram að ganga muni þær hafa áhrif á um sjö til 30.000 einstaklinga. Ekki liggur fyrir hversu háum fjárhæðum þessi ofurskattur gæti skilað í franska ríkiskassann.