Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að ríkisstjórnin muni setja af stað vinnu til að breyta lögum og leggja Landsdóm niður. Hann segir þau viðbrögð eðlileg eftir ályktun Evrópuráðsþingsins frá því í gær.

Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 fyrr í kvöld en Evrópuráðsþingið samþykkti í gær ályktun þar sem þeim tilmælum er m.a beint til aðildarríkja Evrópuráðsins að ekki eigi að nota opinber réttarhöld til að hegna fyrir pólitísk mistök eða ágreining og stjórnmálamenn eigi að svara til saka fyrir refsiverða háttsemi með sama hætti og óbreyttir borgarar, þ.e fyrir almennum dómstólum. Pólitískar ákvarðanir eigi að sæta pólitískri ábyrgð þar sem verk eru lögð í endanlegan dóm kjósenda.

Bjarni Benediktsson sagði í samtali við Þorbjörn Þórðarson, fréttamann Stöðvar 2, í kvöld að ríkisstjórnin muni bregðast við þessari ályktun með skýrum hætti.

„Þetta er í raun og veru áfellisdómur yfir þeirri málsmeðferð sem að Geir H. Haarde þurfti að þola hérna á Íslandi og þetta hlýtur að vera okkur tilefni til þess að taka landsdómslögin til endurskoðunar,“ segir Bjarni.

Aðspurður um það hvort ráðist yrði í þær breytingar á núverandi kjörtímabili sagði Bjarni að svo mikilvæg réttarbót mætti ekki bíða.

Rétt er að taka fram að til þess að leggja Landsdóm niður þarf að breyta stjórnarskránni, enda er kveðið á um hann í 14. gr. hennar. Ef breyta á stjórnarskrá þarf núverandi þing að samþykkja þá breytingu og strax í kjölfarið er þing rofið, boðað til kosninga, og nýtt þing þarf að samþykkja stjórnarskrárbreytinguna til að hún taki gildi.

Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, í Landsdómi þann 06.03.12.
Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, í Landsdómi þann 06.03.12.
© BIG (VB MYND/BIG)

Geir H. Haarde, fv. forsætisráðherra, er eini Íslendingurinn sem dreginn hefur verið fyrir landsdóm af pólitískum andstæðingum sínum.