Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stefnir á forystusæti í næsta prófkjöri. Í samtali við Viðskiptablaðið segist hann vilja leiða kjördæmi. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins fer fram 3. september og verður sameiginlegt prófkjör fyrir Reykjavík norður og Reykjavík suður.

Guðlaugur Þór er fyrrverandi ritari Sjálfstæðisflokksins og tók við stöðu heilbrigðisráðherra árið 2007. Þeirri stöðu gegndi hann fram að kosningum árið 2009. Guðlaugur var í fimmta sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins síðast þegar prófkjör flokksins fór fram. Þá leiddu Illugi Gunnarsson, núverandi menntamálaráðherra, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, lista Reykjavíkur.

Ólöf Nordal, núverandi innanríkisráðherra, hefur lýst því yfir að hún ætli að gefa kost á sér í næstu Alþingiskosningum. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hefur einnig tilkynnt framboð, en enn er óvitað hvaða sæti hún muni berjast fyrir.