Nú mega ökumenn keyra um á nagladekkjum frá 1. nóvember til 14. apríl en Sturla Pétursson, framkvæmdastjóri Gúmmívinnustofunnar, vill lengja þetta tímabil um mánuð í hvorn enda.

„Nú í haust byrjaði að kólna úti á landi í lok september og þá þurftu menn að græja bílinn á nagladekk. Fólk er að fara út á land með fjölskyldu og vinum í sumarbústaði m.a. í kringum vetrarfrí í skólum sem er um miðjan október. Þá eru menn að vandræðast því þeir mega ekki fara á nagladekk fyrr en 1. nóvember,“ segir Sturla.

„Mér finnst að það þurfi að leyfa ökumönnum að fara á nagladekk 1. október og vera á þeim fram til 15. maí því það eru líka margir að fara út á land um páskana. Bílaleigurnar þurfa að græja sína bíla fyrr þar sem útlendingar eru að keyra þá út um allt land. Það er ekkert vit í því að vera á sumardekkjum uppi á heiði ef það kemur skyndilega hálka og snjór. Ef það er verið að bíða eftir 1. nóvember þá vinnst þetta miklu hægar og það myndast örtröð á öllum dekkjaverkstæðum sem er engum í hag.“

Fólk fyrr á ferðinni að skipta

Hann segir að fólk sé fyrr á ferðinni að skipta yfir í vetrardekk nú en undanfarin ár. „Fólk er að koma fyrr til okkar nú í ár en áður. Því finnst leiðinlegt að bíða í biðröð og vill vera tilbúið þegar fyrsta frostið kemur. Mér finnst ökumenn betur meðvitaðir um að vera á góðum dekkjum. Það eru flestir komnir á nýja eða nýlega fína bíla og fólk vill hafa þetta allt í góðu standi.“

Sturla segir að góðir hjólbarðar auki öryggi bílsins til muna hvort sem það er vetur eða sumar. „Öryggi bílsins byggist á góðum hjólbörðum. Það er mikilvægt að huga reglulega að dekkjunum og skoða mynsturdýpt, loftþrýsting og almennt ástand þeirra.

Nýleg reglugerð segir að mynsturdýpt dekkja verði að vera að minnsta kosti 3 millimetrar yfir veturinn. Yfir sumartímann á dýptin að vera lágmark 1,5 millimetrar,“ segir Sturla og bætir við að það sé ýmislegt sem þurfi að huga að varðandi dekkin.

Loftþrýstingur þarf að vera réttur

„Loft í dekkjum þarf að vera hæfilegt til að aksturseiginleikar bílsins haldist réttir. Réttur loftþrýstingur eykur líftíma dekkjanna. Það þarf að vera sami loftþrýstingur á dekkjum sama áss. Of mikið eða of lítið loft slítur dekkjunum og getur valdið hættu við akstur.

Svo er oft ágætt að hreinsa dekkin á veturna. Þeir sem eru á heilsársdekkjum ættu að láta skipta á milli fram- og afturdekkja með reglulegu millibili svo þeir klári ekki annað hvort parið.“ Hann segir að það sé komið mjög gott grip í flest vetrardekkin eða heilsársdekkin, eins og má kalla þau, sérstaklega frá bestu framleiðendum.

„Við leggjum mikla áherslu á að bjóða upp á gott úrval af vönduðum vetrardekkjum,“ segir Sturla. Gúmmívinnustofan er eitt elsta hjólbarðaverkstæðið á höfuðborgarsvæðinu en það var stofnað árið 1960.

Nánar má lesa um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .