Sádi-arabíski prinsinn og milljarðamæringurinn Alwaleed bin Talal, hefur hvatt stjórnvöld í heimalandi sínu til þess að leyfa konum að öðlast ökuréttindi. Hann telur konur ekki einungis þurfa á þessu frelsi að halda, heldur telur hann þetta hreinlega vera efnahagslega nauðsyn.

Sádi-arabía er eina landið í heiminum sem bannar konum að aka bílum. Konur sem hafa barist fyrir því að öðlast þessi réttindi hafa hreinlega verið handteknar. Alwaleed er auðugasti meðlimur Sádi-arabísku konungsfjölskyldunnar og hefur áður tjáð sig um málefni kvenna þar í landi.

Þrátt fyrir að hann gegni engum pólitískum embættum, er hann stjórnarformaður Kingdom Holding Company, sem á stóra hluti í fyrirtækjum á borð við Citigroup, Disney, 21st Century Fox, Apple og General Motors.

Prinsinn telur að bannið sé álíka mikið brot á mannréttindum og að banna konum að mennta sig. Prinsinn tilkynnti þessar vangaveltur sínar á heimasíðu sinni og telur það jafnframt vera dýrt spaug fyrir landið að halda í þessi boð og bönn.

Í dag eru rúmlega milljón bílstjórar í vinnu við að keyra konum um borgir og bæi, en almenningssamgöngur þykja afar slappar. Prinsinn telur að meðalfjölskyldan eyði um 3.800 riyals eða 1.000 Bandaríkjadölum í bílstjóra í hverjum mánuði. Með því að leyfa konum að keyra væri hægt að bæta fjárhag heimilanna og jafnframt myndu karlmenn ekki þurfa að halda sér frá vinnu til þess að sinna akstri kvenna.

Bréf prinsins má lesa á heimasíðu hans.