Þegar talin höfðu verið öll atkvæði í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, samtals 3826 atkvæði sem fram fór í gær er ljóst að Eyþór Arnalds verður oddviti flokksins í borginni. Hlaut Eyþór tæplega 61% gildra atkvæða, en Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi sem var næst á eftir fékk tæplega 21% atkvæða.

Auðir og ógildir atkvæðaseðlar voru 59 talsins, því voru samtals 3885 greidd atkvæði, sem er nokkru minna en í síðasta prófkjöri flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar, þegar 5.075 flokksmenn greiddu atkvæði.

Í þetta sinn var prófkjörið nýstárlegt að því leiti að einungis var kosið um efsta sætið. Í prófkjörinu árið 2016 fyrir alþingiskosningarnar kusu 3329 manns svo nú voru um 500 fleiri sem kusu í prófkjöri flokksins í borginni. Eyþór segist þakklátur og auðmjúkur fyrir því verkefni sem hann standi nú frammi fyrir í samtali við mbl .

„Ég er alltaf bjartsýnn og bjóst við því að geta sigrað en engan veginn með þessum mikla mun, maður var nú bara hálfklökkur,“ segir Eyþór sem segist ætla að fara úr stjórnum og eigendahópum þess sem ekki er viðeigandi, en hann er stærsti einstaki eigandi Morgunblaðsins .

„Í þessu er von fyrir borgarbúa, það er greinilegt að það er ákall um breytingar, breytingar í Sjálfstæðisflokknum og breytingar í borginni. Ég held að við getum farið með sterkt umboð um breyttar áherslur inn í vorið.“

Viðskiptablaðið hefur rætt við Eyþór um áherslur hans í fjármálum borgarinnar og álögum á fólk og fyrirtæki, í stefnu gagnvart flugvellinum og hjálparsamtökum og trúfélögum í borginni.

Aðspurður sagði hann sín helstu baráttumál vera að hverfa frá stefnu borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata að þrengja að umferð, en mælt er fyrir um nauðsyn þess í skýrslu um lífvænleika Borgarlínunnar svokölluðu.

„Ég vil leyfa fólki að ferðast á eðlilegum hraða á milli borgarhluta,“ segir Eyþór sem segir í samtali við Vísi að umferðarvandinn í borginni verði sífellt verri ár frá ári undir stjórn núverandi meirihluta.

„[Þ]að þarf að fara í raunhæfar lausnir þannig að það taki ekki 45 mínútur að skutla barni. Í öðru lagi að hafa framboð á húsnæði og lóðum þannig að húsnæði sé ekki of dýrt fyrir fólk. Númer þrjú að leikskólar séu mannaðir þannig að ekki þurfi að senda börnin heim og í fjórða lagi að vinna að enn betri grunnskóla. Og kannski fimmta atriði sem er mikilvægt er að minnka stjórnkerfið. Minnka kostnað, minnka flækjustig og stytta boðleiðir.“

Lokatölur í leiðtogaprófkjörinu voru sem hér segir:

  1. Eyþór L. Arnalds - 2320 atkvæði eða tæplega 61% gildra atkvæða.
  2. Áslaug María Friðriksdóttir - 788 atkvæði eða tæplega 21% gildra atkvæða.
  3. Kjartan Magnússon - 460 atkvæði eða 12% gildra atkvæða.
  4. Vilhjálmur Bjarnason - 193 atkvæði eða 5% gildra atkvæða.
  5. Viðar Guðjohnsen - 65 atkvæði eða tæplega 2% gildra atkvæða.