Mögulega er tímabært að löggjafinn íhugi að festa ákvæði í lög um það hvenær börnum verði heimilt að eiga snjallsíma „með aðgangi að því internet hlaðborði sem þeim fylgja“. Þetta sagði Hjálmar Bogi Hafliðason, varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, í ræðu á Alþingi, í liðnum störf þingsins, nú rétt í þessu.

Í ræðu sinni vakti Hjálmar Bogi máls á því að börn eignist ný og ný réttindi eftir því sem þau eldast. Gildi það til að mynda um útivistartíma, hvenær þau verða fjárráða, hvenær þau mega ganga í hjónaband og hvenær þau geti verslað vímugjafa á borð við áfengi og tóbak.

„Við eigum til að mynda viðmið um orkudrykkjaneyslu barna. En hvers vegna er í lagi að tólf ára barn eignist snjallsíma með aðgangi að internet hlaðborði sem þeim fylgja? Hvað þá með tíu eða níu ára barn? Við eigum fordæmi. Fjórtán ára má barn sjá allar kvikmyndir í kvikmyndahúsum ef þau horfa í fylgd með foreldri eða forráðamanni,“ sagði Hjálmar Bogi.

Lagði hann til að þingið tæki til skoðunar að leggja til að börn mættu fyrst eignast snjallsíma þegar þau verða fullra fimmtán ára. Með því megi aðstoða foreldra að sinna því flókna hlutverki að ala upp barn.