Forsætisráðherra Lúxemborg, Xavier Bettel segir að ríkisstjórnir Evrópu ættu að íhuga að setja á landamæraeftirlit tímabundið í einn sólarhring til að sýna kjósendum fram á kosti ferðafrelsis innan sambandsins.

Ákvörðun Bretlands að yfirgefa sambandið hefur ýtt við mörgum leiðtogum ESB landa og ríkisstjórna um að endurskoða hvað virkar og hvað ekki innan sambandsins, sagði Bettel á ráðstefnu í París.

Myndi sýna fólki afleiðingarnar af landamæraeftirliti

„Að loka landamærunum í einn dag myndi sýna fólki hvað það hefur í för með sér að þurfa að bíða í tvo tíma eftir því að komast inn í Ítalíu eða Spán,“ sagði Bettel. „Í einn dag. Svo að fólk geti séð hvað það þýðir að vera utan Evrópu. Ég er að segja hræðilega hluti, en þetta væri gott fyrir fólk til að skilja.“

Í næstu viku hittast leiðtogar ESB landanna til að ræða áætlanir til að endurvekja áhuga og hrifningu á sambandinu í álfunni í kjölfar ákvörðunar bresku þjóðarinnar að yfirgefa sambandið.

Setur stjórn á innflytjendamálum í forgang

Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, hefur ýtt við mörgum fjárfestum og öðrum í vikunni með yfirlýsingum að hún sé hlynnt ákveðnari skrefum í aðskilnaðinum við ESB, og að hún sé tilbúin að fórna viðskiptatækifærum breskra fyrirtækja innan sambandsins til að tryggja stjórn á innflytjendastraumnum.

Bettel vill að leiðtogar ESB landanna standi stöðugt á þeirri ákvörðun sinni að Bretar verði að hefja formlega úrsögn áður en þeir hefja nokkrar viðræður um afleiðingar úrsagnarinnar við Bretland.

Vill ekki njóti bara kostanna án þess að taka gallana

Bretland „vill eiga kökuna og éta hana,“ sagði hann. „Áður meðan þeir voru inni höfðu þeir ýmsar undanþágur; núna þegar þeir vilja vera fyrir utan vilja þeir hafa möguleika á að vera með ákveðnar leiðir inn. Við erum ekki Facebook þar sem hægt er að velja að lýsa yfir að sambandið sé flókið.“

Segir hann að ef sambandið myndi leyfa Bretlandi að velja kosti sambandsins án þess að þurfa að taka á sig nokkuð af göllum þess myndi það ýta undir þjóðaratkvæðagreiðslur í mörgum Evrópulöndum þar sem fólk myndi vilja ná fram sömu niðurstöðu.