Katrín Amni Friðriksdóttir stofnaði nýlega markaðsráðgjafarfyrirtækið Kamni ehf. Katrín starfaði áður við markaðsmál hjá Heilsuhúsinu og Lyfju, en ákvað að söðla um eftir að hafa náð að byggja upp stórt og traust tengslanet í gegnum samstarf sitt við hina ýmsu aðila.

„Ég fann það alltaf meira og meira á öllum þeim fundum sem ég átti með birgjum og öðrum samstarfsaðilum að það var farið að leita mjög mikið persónulega til mín,“ segir Katrín. „Ég sá ákveðin tækifæri í því og langaði að prófa að gera þetta sjálf.“

Mikil breidd í gæðum

Katrín segist hafa mestar tengingar inn í heilsugeirann og hún býst því við því að starfa mest á sviði lúxusvara og heilsutengdra vara. Markaðssetning slíkra vara verður stundum fyrir gagnrýni, meðal annars fyrir að ýta undir óraunsæjar útlitskröfur og fyrir óraunsæjar væntingar til varnings ýmisskonar. Katrín segist aðspurð geta tekið undir þessa gagnrýni.

„Vandamálið í þessu öllu er að breiddin í vöruframboði og vöruúrvali er jafn mikil og gæðin,“ segir Katrín. „Þú getur fundið alveg ótrúlega góða vöru og á sama tíma geturðu fundið jafn slæma. Þannig að þetta er bara ótrúlega viðkvæmt og það þarf að fara vel með þetta. Það er bara mín skoðun.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .