„Ég tel að menntun og menning sé lykilatriði til að halda jafnvægi milli landsbyggðarinnar og borgarinnar og þess vegna tel ég að það beri að efla þá fjóra háskóla sem starfa á landsbyggðinni; Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst og landbúnaðarháskólana tvo á Hvanneyri og Hólum. Þessir skólar gegna lykilhlutverki hver á sínum stað og hver á sínu sviði og það hefur sýnt sig að þar sem þessir skólar eru er öflugt og blómlegt mannlíf,“ segir Ágúst Einarsson, rektor hákólans á Bifröst.

„Við sjáum þetta mjög vel hér í Borgarfirði þar sem tveir háskólar eru, en hér hefur samfélagið breyst frá því að vera landbúnaðarsamfélag í skólasamfélag á örfáum árum án þess að menn hafi tekið mikið eftir því. Nú er lítil landbúnaðarframleiðsla í þessu stóra héraði en 70% af tekjum bænda í Borgarfirði eru tilkomnar vegna laxveiðiánna en ekki vegna hefðbundins búrekstrar. Hér höfum við góða menntun og mikið menningarlegt starf og þar vill fólk vera. Íslendingar búa við þá sérstöðu að 2/3 hlutar þjóðarinnar búa á höfuðborgarsvæðinu og ¾ hlutar búa í klukkutíma akstursfjarlægð frá Lækjartorgi.

Þetta er einsdæmi í heiminum, en vitaskuld þarf að vera byggð í landinu öllu. Landið er fámennt en stórt og ég held að háskólarnir, og skólar yfirleitt, gegni hér lykilhlutverki. Við sjáum þetta mjög vel þegar við skoðum svæðin þar sem skólastarfið er öflugt, t.d. í Borgarfirði, Eyjafirði, Skagafirði og Mið-Austurlandi, en á þessum stöðum eru mjög lífvænlegar einingar. Byggðir sem standa höllum fæti eru fyrst og fremst þar sem ekki eru öflugir skólar, t.d. á Vestfjörðum, og þá sérstaklega á suðurfjörðunum, Norð-Austurlandi og í jaðarbyggðunum á Austurlandi. Ég er hins vegar ekki að tala fyrir því að setja upp háskóla á hverjum stað. Ég held að besti árangurinn náist með því að efla þá skóla sem fyrir eru.“

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í helgarviðtali Viðskiptablaðsins á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .