*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 12. október 2020 08:44

Vill mjög stífar öryggiskröfur

Forstjóri Vodafone segir það skapa falskt öryggi ef menn haldi að bann við búnaði frá Huawei þýði að annar búnaður sé í lagi.

Trausti Hafliðason
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone.
Eva Björk Ægisdóttir

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone, segir að íhlutun bandarískra stjórnvalda hafi haft mjög mikil áhrif á uppbyggingu 5G. Vísar hann hér til ákvörðunar þeirra um að banna 5G-fjarskiptanet frá kínverska fyrirtækinu Huawei. Þá hafa bandarísk stjórnvöld þrýst á önnur lönd um að gera slíkt hið sama og hafa Bretar látið undan þrýstingnum og lagt bann við uppbyggingu á kerfum frá Huawei frá og með næstu áramótum og til ársins 2027. Þá hafa Ástralir einnig lagt bann við uppbyggingu 5G með kerfum frá kínverska fyrirtækinu.

„Daginn eftir að Ástralir bönnuðu Huawei hækkuðu Ericsson og Nokia verð á 5G búnaði um 30%. Þetta bann þýðir einnig að það mun taka Ástrali mun lengri tíma að byggja upp sitt 5G-kerfi. Í Bretlandi hófu Vodafone og fleiri fjarskiptafyrirtæki að byggja upp 5G með kerfum frá Huawei og þau munu fá að halda því áfram. Þessi búnaður er síðan afskrifaður á um það bil fimm árum og mun þetta bann því hafa takmörkuð áhrif á þessi fyrirtæki. 

Þessar aðgerðir að banna Huawei hafa haft áhrif á uppbyggingu 5G víðs vegar um heim af þeirri einföldu ástæðu að Huawei er langstærst á þessu sviði, með um helmings markaðshlutdeild á meðan Ericsson er með um 20% hlutdeild og Nokia 15 til 20%. Með því að banna kerfin frá Huawei þá gefur augaleið að Ericsson og Nokia eru ekki með framleiðslugetu til að anna eftirspurninni.“

Falskt öryggi

Á Íslandi eru bæði Vodafone og Nova að byggja upp sín 5G kerfi með tækni frá Huawei en Síminn samdi við Ericsson.

„Ef við skoðum þau lönd sem standa hvað fremst í löggjöf og kunnáttu í kringum farsímakerfi þá eru það Svíþjóð vegna Ericsson og Finnland vegna Nokia. Þessi tvö lönd hafa einungis sett almennar reglur um fjarskiptabúnað enda fráleitt að setja sértækar reglur á þessu sviði. Sértækar reglur eru bæði óréttlátar og óhagkvæmar. Það á að setja mjög stífar öryggiskröfur og allur búnaður á að falla undir þær. Ég hef talað fyrir „zerotrust“ stefnu varðandi allan tæknibúnað. Það á ekki bara að gera þessar kröfur til framleiðenda kerfa heldur allra sem að uppbyggingunni koma, undirbirgja og verktaka. Með þessu móti er hægt að tryggja að allur búnaður mæti sömu reglum og viðmiðum hvað varðar öryggi.

Það skapar falskt öryggi ef menn halda að með því að banna búnað frá Huawei þá sé allur annar búnaður í lagi. Það er ágætt að hafa í huga að vefinnbrot og stuldur á gögnum hafa aldrei verið rakin til framleiðenda upplýsingakerfa eða fjarskiptakerfa heldur til tölvuþrjóta. Nýjasta dæmið er þegar rússneskir tölvuþrjótar brutust inn í kerfið hjá bandaríska fyrirtækinu Garmin í sumar. Stálu þeir persónuupplýsingum, meðal annars greiðslukortaupplýsingum notenda Garmin-snjallúra. Garmin endaði með því að borga nokkrar milljónir dollara í lausnargjald til þess að fá upplýsingarnar aftur. Þetta er vandamálið í dag.“

Engar Kínasleikjur

Vodafone Group, sem við störfum með, er með tíu þúsund fjarskiptaverkfræðinga á sínum snærum. Þeir eru búnir að fara í gegnum allan Huawei-búnað án þess að finna nokkurn skapaðan hlut. Þeir meta það sem svo að Huawei sé framleiða mjög öruggan búnað og að erfiðara sé að brjótast inn í hann en búnað frá Ericsson og Nokia. Allt tal um lélega öryggisstaðla hjá Huawei tengist pólítik og þá sérstaklega utanríkispólitík Donalds Trump. Fjöldinn allur af löndum, sem standa mjög framarlega í tæknimálum, lætur þessa orðræðu Trump sem vind um eyru þjóta. Ég hef nefnt Svíþjóð og Finnland og ég get líka nefnt Sviss, þar sem verið er að byggja upp fjarskiptakerfi frá Huawei. Það er ekki eins og Svisslendingar séu einhverjar Kínasleikjur, öðru nær.“

Nýtt frumvarp til laga um fjarskipti var lagt fram á þingi í sumar. Áður, eða í febrúar, kom út skýrsla starfshóps, sem falið var að meta þörf á breytingum á regluverki vegna öryggis 5G-kerfa á Íslandi. Heiðar segir að í skýrslunni hafi ótilteknum embættismönnum verið falið ákvörðunarvald og þannig farið framhjá Póst- og fjarskiptastofnun, sem þó sé eftirlitsaðili stjórnvalda á fjarskiptamarkaði. Heiðar gagnrýndi þetta á þeim tíma, meðal annars að ákvarðanir embættismannanna væru undanþegnar stjórnsýslulögum og þar með væri hægt að banna búnað án andmælaréttar. Taldi hann þetta stangast á við stjórnarskrá. Heiðar segir að í frumvarpinu hafi þessu sem betur fer verið breytt þannig að valdið sé ekki einungis hjá ótilteknum embættismönnum heldur Póst- og fjarskiptastofnun og nú væri búið að tryggja réttinn til andmæla. „Það er hægt að búa við þetta núna,“ segir hann.

Stikkorð: 5G Heiðar Guðjónsson