Þingmenn Vinstri-grænna lögðu í dag fram tvær fyrirspurnir tengdar byssumálinu svokallaða. Katrín Jakobsdóttir formaður VG lagði fram fyrirspurn og óskar eftir upplýsingum frá dómsmálaráðherra um vopnaeign og vopnaburð lögreglunnar. Hún hefur óskað eftir því að greint verði frá fjölda skotvopna og því hvernig þau skiptist eftir gerðum, stærðum og lögregluembættum. Þá vill hún upplýsingar um upprunaland skotvopna, auk þess sem greint verði frá því hvaða vopn hafa verið keypt og hver fengin að gjöf.

Katrín vill jafnframt vita hver leggur mat á þörf fyrir skotvopn, í hversu mörgum lögreglustöðvum og lögreglubílum skotvopn eru geymd og hvaða stefna er í gildi um ákvarðanatöku um skotvopn, meðal annars.

Björn Valur Gíslason lagði einnig fram fyrirspurn og vill fá upplýsingar um samskipti Landhelgisgæslunnar við norsk hermálayfirvöld, í kjölfar viðtals við forstjóra gæslunnar í fréttum RÚV 26. október. „Kom fram í máli forstjórans að Landhelgisgæslan veitir norskum hermálayfirvöldum ýmsar notadrjúgar upplýsingar „um umferð og veður og sjólag og annað því um líkt“ og fær Landhelgisgæslan skotvopn frá norskum hermálayfirvöldum sem endurgjald fyrir þá þjónustu samkvæmt því sem skilja mátti af orðum forstjórans,“ segir í fyrirspurn Björns Vals. Vegna þessa óskar hann eftir upplýsingum um það hvernig samskiptum er háttað.