*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 4. september 2020 08:37

Vill nýja stjórnendur hjá Icelandair

Formaður VR leggst gegn fyrirhuguðum breytingum á lögum um lífeyrissjóði og segir að ef þeir taki þátt í útboði beri forystu Icelandair að víkja.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, skorar á stjórnir lífeyrissjóða leggjast gegn frumvarpi sem heimilar lífeyrissjóðum að auka fjárfestingar í ákveðnum tegundum afleiða. Þá segir hann að það ætti að vera skilyrði fyrir þátttöku í hlutafjárútboði Icelandair að ný stjórn og stjórnendur verði sett yfir félagið. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu hans.

Tilefni skrifanna er frumvarp efnahags- og viðskiptanefndar sem eykur heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í afleiðum. Frumvarpinu er ætlað að veita lífeyrissjóðunum heimild til að skrá sig fyrir áskriftarréttindum í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair en sjóðunum hefði að óbreyttu verið það óheimilt.

Sjá einnig: Liðka fyrir útboði með lagabreytingu

„Það er í raun ótrúlegt að hugsa til þess að sömu stjórnmálamenn og Seðlabanki fóru á taugum þegar stjórn VR, skipunaraðili í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna, hafði opinbera skoðun á því hvort fjárfesta ætti í félagi sem braut gegn leikreglum vinnumarkaðarins og þannig gegn fjárfestingastefnu sjóðsins okkar,“ segir Ragnar Þór og bætir við: „Og vorum svo sökuð um „skugga“ stjórnun [sic!] með því að álykta um málið með opinberum hætti.“

Að sögn formannsins er breytingunni ætlað að komast dýpra í djúpa vasa eftirlaunasjóða almennings. Þá segir hann að Seðlabankinn hafi haldið lífeyrissjóðum í gjaldeyrishöftum, án lagaheimildar, á meðan aðrir fjárfestar hafi sagt skilið við krónuna. Inngrip og afskipti stjórnmálamanna og Seðlabanka Íslands í starfsemi lífeyrissjóða séu mun alvarlegri en skoðanir forystufólks í verkalýðshreyfingunni á starfsemi sjóðanna.

„Ég vona að þeir þingmenn, ef einhverjir eru, sem eru ekki litaðir af sérhagsmunum eða meðvirkni gagnvart spillingu, sjái til þess að þessar breytingar á fjárfestingaheimildum lífeyrissjóða fari ekki í gegnum þingið,“ segir Ragnar Þór.

„Ef sjóðirnir ætla svo á annað borð að taka þátt ættu þeir að takmarka áhættuna með því að skrá sig fyrir, í mesta lagi, helming bréfa til að fá úr því skorið hvort þetta snúist eins og venjulega um að láta almenning blæða fyrir bullið eða hvort almennir fjárfestar séu jafn auðtrúa á áætlanir stjórnenda Icelandair. Það er dapurlegt og í raun ömurlegt að horfa uppá leikritin sem sett eru upp til að afvegaleiða umræðuna,“ ritar Ragnar Þór.

Stikkorð: Alþingi Icelandair