Óli Björn Kárason er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og nýr formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Hann hefur lengi verið viðloðandi stjórnmál og var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili, auk þess sem hann sat áður í stjórn SUS og Vöku. Óli Björn hefur lengi verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni, m.a. sem ritstjóri Þjóðmála og með aðsendum pistlum í Morgunblaðinu, en hann á langan feril að baki sem blaðamaður. Stofnaði hann t.a.m. Viðskiptablaðið árið 1994 og ritstýrði blaðinu í nokkur ár þar á eftir. Óli Björn er hagfræðingur að mennt og hefur gjarna barist fyrir auknu frelsi og lægri sköttum.

Hvað kom til með að þú leiddist út í pólitíkina?

„Ég hef alltaf verið pólitískur og haft gríðarlegan áhuga á hugmyndafræði og hugmyndum. Ég hef sótt mjög til hugmyndafræði gömlu austurrísku hagfræðinganna, aðallega Mises og Hayeks, allt frá menntaskólaárunum. Ég sat í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna árin 1981-1985 þegar Geir H. Haarde var formaður. Ég var einnig mikið virkur í stúdentapólitíkinni, sat í Stúdentaráði og var formaður Vöku, en það fer ekkert voðalega vel með námi. Eftir að ég sneri mér alfarið að blaðamennsku hætti ég meira og minna afskiptum af stjórnmálum í þeim skilningi, þó ég léti aldrei af hugmyndafræðinni og héldi áfram að berjast fyrir skoðunum hinna frjálslyndu hagfræðinga.“

Hví ákvaðstu að sökkva þér af fullum krafti í stjórnmál eftir langan feril í blaðamennsku?

„Eftir fall íslensku bankanna og allt umrótið sem því fylgdi, þá sannfærðist ég um að Bjarni Benediktsson, ungur maður sem bauð sig fram til forystu, væri sá maður sem gæti reist Sjálfstæðisflokkinn við og byggt hann upp. Ég studdi hann mjög eindregið árið 2009 og hef alla tíð gert síðan. Svo flæktist maður æ meir inn í þetta og ég hafði auðvitað verið varaþingmaður undanfarin ár, og eftir síðustu kosningar er maður orðinn aðalmaður fyrir Suðvesturkjördæmi.“

Einkareknar heilsugæslustöðvar betri

Myndirðu kalla sjálfan þig frjálshyggjumann?

„Hugmyndir mínar hafa mótast af ýmsum þáttum, t.d. af því hvar mínar rætur liggja í Skagafirðinum. Auðvitað mótast skoðanir mínar og hugmyndir að einhverju leyti af umhverfinu og ég hef sjálfsagt breytt um skoðun í mörgum málum, en í grunninn er þetta mjög einfalt. Ég er frjálshyggjumaður þegar kemur að atvinnulífinu, ég er talsmaður þess að ríkið haldi sig eins mikið til hlés þegar kemur að atvinnulífinu og hægt er.

En ég er um leið sannfærður um að við eigum að byggja hér upp öflugt velferðarkerfi, sem ég er ekki viss um að allir frjálshyggjumenn séu hlynntir. Þá á ég við að við tryggjum það að hér hafi allir aðgengi að öflugri heilbrigðisþjónustu og menntakerfi, svo ekki sé talað um öryggi borgaranna, löggæslu, samgöngur o.s.frv.

Þetta tel ég að við eigum að gera í sameiningu, en mig greinir hins vegar á við marga um hvernig við eigum að reka þetta. Ég segi að við skulum vera sammála um það að fjármagna menntakerfið, heilbrigðiskerfið og almannatryggingakerfið úr sameiginlegum sjóðum, en við eigum um leið að leita hagkvæmustu leiðanna til að reka þetta kerfi og veita góða þjónustu. Ef einkaaðilar geta veitt heilbrigðisþjónustu á jafngóðu eða hagstæðara verði en ríkisbatteríið, þá eigum við auðvitað að nýta kosti einkaframtaksins.

Ég tel að það sé óábyrgt af stjórnmálamönnum að hafna því að nýta kosti einkaframtaks, hvort heldur er á sviði skóla eða heilbrigðiskerfisins. Ef þjónustan er trygg og góð og aðgengi er jafnt, eigum við að gera það, og ef þetta er frjálshyggja, þá er ég frjálshyggjumaður.“

Í umræðunni um heilbrigðis-, mennta- og velferðarmál er gjarna kallað eftir meira fjármagni. Er ekki jafnframt mikilvægt að finna leiðir til að nýta fjármagnið sem best?

„Þegar fram kemur krafa um að við eigum að setja 11 prósent af vergri landsframleiðslu í heilbrigðiskerfið, þá er um algerlega merkingarlausa kröfu að ræða. Auðveldasta leiðin til að ná því marki er að draga landsframleiðsluna saman, en það eykur hins vegar ekki fjármunina í heilbrigðiskerfinu. Það er merkingarlaust að tala um eitthvað ákveðið hlutfall landsframleiðslu í heilbrigðiskerfið og við vitum það einnig að við erum ekki að nýta þessa 200 milljarða sem renna inn í heilbrigðiskerfið með skynsamlegum hætti. Við erum ekki að tryggja að þessi þjónusta sé eins góð og ef við nýttum peningana á bestan hátt. Við erum að leysa vandamál með mjög dýrum hætti sem við gætum leyst með öðrum hætti ef við værum t.d. með heilsugæsluna eða hjúkrunarheimili í lagi, en við erum með dýrustu úrræðin – sem eru sjúkrahús. Við þurfum að byrja á grunninum, sem er heilsugæslan, og það er ekkert sem segir annað en að einkaaðilar séu jafn færir og í rauninni betri að rekja heilsugæslu en hið opinbera. Ég bendi á að einkareknar heilsugæslustöðvar hafa náð betri árangri og meiri afköstum heldur en hinar opinberu og það sem meira er, að ánægjan með þjónustuna er meiri.“

Hvers vegna heldurðu að fólk sé smeykt við einkaframtakið í þessum geira?

„Ég held að í grunninn geri Íslendingar þá kröfu að við tryggjum sameiginlega að allir hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, að enginn þurfi frá að hverfa vegna fjárhags eða þjóðfélagsstöðu. Ég held að 99% Íslendinga séu sammála þessu og þeir hræðast það að ef ríkið semur við einkaaðila um að veita þessa þjónustu, þá muni það ganga gegn þessu prinsippi. En það er rangt, það er misskilningur, og þetta veit t.d. fólk í Kópavogi sem nýtir sér frábæra þjónustu Heilsugæslunnar í Salahverfi. Það veit að einkaaðilar geta veitt betri og hraðari þjónustu þegar þú þarft á henni að halda, en ekki eftir viku þegar þér er batnað og þú ert búinn að ganga í gegnum veikindin.“

Nánar er fjallað við Óla Björn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .