Kaupás hefur til skoðunar að hefja sölu á bensíni undir nafni Krónunnar við samnefndar verslanir. Þetta staðfestir Jón Björnsson, forstjóri Kaupáss, í samtali við Vísi .

Þar segir Jón að möguleiki sé á samstarfi við annan aðila en einnig að hefja sölu undir nafni Krónunnar. Segir hann að ferlið sé sæmilega langt komið en endanleg ákvörðun muni ekki liggja fyrir fyrr en eftir nokkrar vikur.

Það þekkist víða erlendis að matvöruverslanir starfræki bensínstöðvar á lóðum verslana sinna. Bandaríska verslanakeðjan Costco, sem opna mun verslun í Garðabæ á næsta ári, ætlar að starfrækja bensínstöð við hlið verslunar sinnar í Kauptúni.