Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR vill að lífeyrissjóðirnir fari fram á opinbera rannsókn á viðskiptum sjóðanna við þá Bakkavararbræður, Ágúst og Lýð Guðmundssyni, en markaðsvirði félagsins hefur margfaldast 2,5 til 3,5 sinnum síðan lífeyrissjóðirnir seldu bræðrunum tæplega helmingshlut í félaginu í byrjun síðasta árs.

Þetta kemur fram á facebook síðu hans þar sem hann ýjar að því að lífeyrissjóðirnir hafi getað verið blekktir eða fyrir þeim leynt mikilvægum rekstrarlegum upplýsingum um stöðu Bakkavarar áður en sjóðirnir auk Arion banka seldu bræðrunum 46% hlut í félaginu í byrjun síðasta árs.

Segir hann að það hefði átt að hringja viðvörunarbjöllum að bræðurnir sitji báðum megin við borð, sem forstjóri og stjórnarformaður í félaginu.

Hafa tapað gríðarlegum fjárhæðum í viðskiptum við bræðurna

„Íslenskir lífeyrissjóðir hafa í gegnum árin tapað gríðarlegum fjárhæðum á viðskiptum í félögum tengdum Bakkavararbræðrum,“ segir Ragnar Þór í byrjun pistils síns, en þar gæti hann einnig verið að tala um tap lífeyrissjóðanna á fjárfestingum sínum í Exista.

„Þann 25.Janúar 2016 keypti félag í eigu bræðranna 46% hlut BG12 í breska félaginu Bakkavor group ltd. sem er að stærstum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða og Arion banka. Kaupverðið var 147 milljónir punda eða 27,4 milljarðar króna sem þýddi að áætlað heildarverðmæti félagsins nam um 320 milljónum punda eða um 60 milljarðar íslenskra króna á þáverandi gengi.

Í dag rúmlega einu og hálfu ári síðar er áætlað markaðsvirði Bakkavarar 1.030 til 1.500 milljónir punda eða 147 til 207 milljarðar íslenskra króna. Ef lífeyrissjóðir hefðu beðið eftir skráningu félagsins á markað hefði hlutur BG12 verið 68 til 95 milljarða virði eða 3 til 5 sinnum hærra í pundum talið.

Hvað verður til þess að fyrirtæki í rekstri eins og Bakkavör margfaldi verðgildi sitt með þessum hætti? Hvaða hlutverki gegndu ráðgjafar lífeyrissjóðanna við sölu á þessum hlut og hvaða forsendur lágu að baki fyrir sölunni?

Ég kalla eftir að lífeyrissjóðirnir fari fram á opinbera rannsókn. Ef að sjóðirnir hafa verið blekktir eða bræðurnir leynt mikilvægum rekstrarlegum upplýsingum eða hagað bókum þannig að áhrifa gætti við verðmat er um að ræða eitt stærsta fjársvikamál Íslandssögunnar þar sem lífeyrissjóðir almennings urðu af milljarða tugum í viðskiptum við bræðurna sem sitja báðum megin borðs í fyrirtækinu, annar er forstjóri en hinn stjórnarformaður, eitthvað sem hefði átt að hringja mörgum viðvörunarbjöllum stærstu eigenda félagsins.“