Michel Barnier, framkvæmdastjóri innri markaða hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, er sagður ætla að mæla fyrir því að misnotkun með vexti á millibandamarkaði verði gerð að refsiverðu athæfi.

Talsmaður hans segir í samtali við Reuters-fréttastofuna mikilvægt að draga lærdóm af braski starfsmanna Barclays-banka í Bretlandi með vextina og auka eftirlit með því að unnið sé í samræmi við lög.

Eins og áður hefur komið fram ætlar efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (e. Serious Fraud Office) að rannsaka braskið. Talið er líklegt að fleiri bankar hafi staðið í álíka braski, jafnvel á annan tug banka innan Evrópusambandsins, í Bandaríkjunum, Japan og Kanada.

Bankinn var um mánaðamótin síðustu sektaður um 290 milljónir dala vegna málsins. Það jafngildir um 60 milljörðum íslenskra króna. Æðstu menn bankans, svo sem bankastjórinn Bob Diamond, hafa tekið poka sína vegna þessa.